Því miður hefur verið tekin ákvörðun um að fresta viðburðinum Jólaleikjafjöri sem fara átti fram 19. desember. Við bíðum betri tíma á nýju ári þegar betur árar í heimsfaraldrinum og bólusetning barna á grunnskólaaldri orðin víðtæk. Því má gera ráð fyrir að viðburðurinn verði auglýstur aftur á nýju ári þegar nær dregur vori ef aðstæður leyfa.
Takk fyrir sýndan áhuga og ég hlakka til að geta deilt afurðum verkefnins með ykkur þegar að þessu kemur.
Í tengslum við verkefnið Handbolti á Heimavelli verður efnt til Jólaleikjafjörs sunnudagsmorguninn 19. desember nk. þar sem börnum í 1.-4. bekk verður boðið að taka þátt í leikjum með áherslu á kast og grip. Leikirnir verða teknir upp á myndskeið og gefnir út sem leiðbeiningarefni um uppsetningu og framkvæmd leikjanna sem farið verður í.
Við biðjum áhugasama foreldra og börn þeirra að kynna sér þennan viðburð hér í skráningarskjalinu – https://forms.gle/sQqUcn4Y1RLzjfLB6 og skrá sig til þátttöku.
Í vor hlaut verkefnið Handbolti á heimavelli styrk frá Þróunarsjóði námsgagna (verkefni nr. 212223-5011). Markmið verkefnisins er að búa til kennsluefni sem nýtist íþróttakennurum sem vilja leggja áherslu á kast, grip, hlaup og stökk í leikformi og tengja við handboltaíþróttina í gegnum leiki. Umfangið er námsefni fyrir 3 vikur, með tveimur 40 mínútna kennslustundum í viku. Markmið verkefninsins mætti skipta í fjóra þætti:
i) Að kynna handboltalíka leiki til kennslu á grundvallarhreyfingum með tímaseðlum fyrir 1.-4. bekk, heimaverkefnum og námsmatsverkfærum.
ii) Að grundvallarhreyfingum kasts, grips, hlaups og stökkum séu gerð viðeigandi skil með kennslu á lykilfærniþáttum.
iii) Að gefa íþróttakennurum verkfæri og hugmyndir að uppsetningu íþróttatíma með markmiðum tengdum aðalnámsskrá.
iv) Að stuðla að jákvæðri fyrstu upplifun nemenda af handbolta og handboltalíkum leikjum með verkefnum við hæfi.
Afturðir verkefnisins verða eftirfarandi:
Sex tímaseðlar fyrir 1-4 bekk með áherslum á grundvallarhreyfingarnar kast og grip í gegnum handboltalíka leiki – myndbandsútskýringar fylgja hverjum kennsluþætti
Þrjú heimaverkefni með myndbandsútskýringum á heimaverkefni með lýsingum og markmiðum
Tvö námsmatsverkfæri á grundvallarhreyfingum kasts og grips – myndbandsútskýringar til nýtingar við námsmat
Auk vefsíðu sem heldur utan um allt innleggið og vísar í markmiðin og áhugavert tengt efni
Ég taldi þörf á þessu verkefni sem handhægu kennsluefni sem leggur höfuðáherslu á þjálfun og þróun hreyfinga í gegnum skólaíþróttatíma. Þannig verður leitast við að gera námsefnið þannig ættu allir íþróttakennarar að geta framkvæmt þessa tíma á eigin HEIMAVELLI út frá þeirri fjölbreyttu aðstöðu sem okkur stendur til boða (stórir salir og litlir, með línum og mörkum eða ekki). Ennfremur verður lagt upp með heimaverkefni sem nemendur geta tekið með sér heim og virkjað foreldra með sér og þannig æft sig á eigin HEIMAVELLI einnig.
Efnið er hannað með nemendur í 1.-4. bekk grunnskóla í huga þó það megi að sjálfsögðu taka hugmyndir og yfirfæra á eldri hópa. Stefnt er að því að efnið verði tilbúið fyrir áramótin svo hægt verði að innleiða þessar áherslur samhliða stórmóti landsliðs karla í handbolta í janúar næstkomandi.