Hugmyndafræði verkefnisins

Þetta verkefni hefur tvö megin markmið. Hið fyrra er að koma til leiðar þeim megináherslum sem ættu að ríkja kennslu barna sem eru að þróa sínar grundvallarhreyfingar. Hér fá undirstöðuatriði í kasti og gripi sviðsljósið. Hið síðara eru aðferðirnar sem felast í þeim leikjum sem eru kynntir eru í verkefninu, sem eru í raun aðeins uppskriftir að því hvernig búa má til aðstæður fyrir gott hreyfinám. Í þeim er uppsetning miðuð að því að skapa verkefni sem er ýmist einfalt (lokaðar og kyrrstaða) eða flókið (opnar og hreyfing) til að mæta ólíku getustigi barna.

Hér er pakkinn um hugmyndafræði verkefnisins sem segir aðeins frá því af hverju verkefnin eru eins og þau eru.

2. desember – Senda á milli

Þegar aðaláherslan í kennslu er á kast og grip mælum við með því að nota tíma í sendingar á milli tveggja. Það getur verið gott að prófa með ólíkum áhöldum þar sem þau bjóða upp á mismunandi möguleika. Það er líka góður vettvangur til að skoða færni barnanna og leggja inn stikkorð.

Í byrjun getur líka verið gott að byrja sitjandi (oft lyftist olnboginn sjálfkrafa við það) og einblína á bolvinduna og miðið. Eftir það er svo hægt að prófa að krjúpa á öðru hné (gagnstæðu við kasthendi). Að lokum er hægt að standa og þjálfa sendingar og grip í kyrrstöðu og svo á ferð.

Þakkir til ykkar

Áður en þetta verkefni fer í loftið er mikilvægt að þakka þeim sem komu að því með okkur á einn eða annan hátt.

Fyrst ber að nefna dr. Aron Gauta Laxdals sem starfar við háskólann í Agder í Noregi á sviði íþróttakennslu og íþróttafræða. Við leituðum til Arons á frumstigum þessa verkefnis til að fá ráðgjöf við nálgun og álit varðandi val á leikjum og uppsetningu. Við kunnum honum miklar og góðar þakkir fyrir hans hugmyndir og ráð.

Þetta verkefni hefði ekki verið eins lifandi án barnanna sem tóku þátt og við kunnum þeim og foreldrum þeirra bestu þakkir fyrir þátttökuna. Tökurnar gengu vel, þar sem við fórum hratt á milli verkefna og keyrslan mikil. Bæði eldri og yngri hópurinn stóðu sig með mikill prýði.

Kærar þakkir fá Fjölnir og Reginn Egilshöll fyrir gestrisnina í tengslum við upptökurnar.

Upptökur og myndvinnsla var í öruggum höndum Vilhjálms Siggeirssonar sem þökkum við fyrir frábært samstarf.

Valdir íþróttafræðingar sem rætt var við formlega og óformlega við vinnslu þessa verkefnis sem hefur nú tekið rúmlega 18 mánuði í vinnslu vegna tafa á upptöku með börnum tengdum heimsfaraldri. Takk til ykkar!

Að lokum viljum við þakka Þróunarsjóði námsgagna fyrir tækifærið að fá að vinna þetta verkefni. Við vonum að það standi undir væntingum og nýtist íþróttakennurum í sinni kennslu. Bæði hvað varðar nálgun við kennslu og við val á verkefnum tengdum kasti og gripi.

með kennslufræðikveðju,

Sveinn Þorgeirsson og Kristján Halldórsson

Jóladagatalið opnað!

Þá er komið að því, við ætlum að kynna verkefnið til leiks í mátulegum munnbitum frá og með deginum í dag 1. desember og fram að jólum. Fylgist endilega vel með hér á síðunni, á youtube eða instagram þar sem vídeó verkefnisins munu birtast.

Fyrsti desember – kynning!

Kveðja kær

SÞ og KH

Skemmtilegum upptökum með börnunum lokið

Við áttum frábæran tíma í Egilshöll á mánudaginn 24. október með börnum sem voru í vetrarfríi grunnskóla og tóku þátt í verkefninu okkar “Handbolti á heimavelli”.

Þarna tókst okkur loks að framkvæma upptökurnar á leikjunum sem verða lagðir fram til grundvallar í þessu verkefni. Eftirvinnslan hefst brátt og það má gera ráð fyrir að efninu verði deilt í desember nk. Efnið verður sneitt niður stutt myndskeið til að sýna uppsetningu leikjanna og ekki síður að útskýra hugmyndina á bakvið þá.

Reyndir íþróttakennarar og þjálfarar kannast eflaust við flest af þessum leikjum en það er þó von okkar að framreiðslan verði gagnleg og efnið nýtist vel.

Hér má sjá eldri hópinn sáttan eftir þétta dagskrá í 2 klst. ásamt Sveini fyrir miðju, Vilhjálmi tökumanni í lyftunni og Kristjáni við hlið hans.
Hér má sjá yngri hópinn sem stóð sig afar vel líka í upphafi dags í tökum.

Fylgist með verkefninu þegar það fer á flug á miðlunum og hér á síðunni…

Vefsíða: www.Handboltiaheimavelli.com

Youtuberásin: https://www.youtube.com/channel/UCWU-OV68AIEyW7U7I6UM_gw

Instagram reikningurinn: https://www.instagram.com/handboltiaheimavelli/  / @handboltiaheimavelli

Facebooksíðan: http://www.facebook.com/Handboltiaheimavelli

Auglýst eftir þátttakendum í handboltaleiki og fjör / gerð kennsluefnis

Í tengslum við verkefnið Handbolti á Heimavelli verður sérstakt vetrarleikjafjör mánudaginn 24. október nk. þar sem börnum í 1.-4. bekk verður boðið að taka þátt í leikjum með áherslu á kast og grip. Leikirnir verða teknir upp á myndskeið og gefnir út sem leiðbeiningarefni um uppsetningu og framkvæmd leikjanna sem farið verður í.

Við biðjum áhugasama foreldra og börn þeirra að kynna sér þennan viðburð hér í skráningarskjalinu og skrá sig til þátttöku.

https://forms.gle/1pSc5JyuXYJNMv556

Ferkari upplýsingar veitir ábyrgðarmaður verkefnisins

Sveinn Þorgeirsson, í gegnum handboltiaheimavelli@gmail.com

Jólaleikjafjöri frestað fram á nýtt ár

Því miður hefur verið tekin ákvörðun um að fresta viðburðinum Jólaleikjafjöri sem fara átti fram 19. desember. Við bíðum betri tíma á nýju ári þegar betur árar í heimsfaraldrinum og bólusetning barna á grunnskólaaldri orðin víðtæk. Því má gera ráð fyrir að viðburðurinn verði auglýstur aftur á nýju ári þegar nær dregur vori ef aðstæður leyfa.

Takk fyrir sýndan áhuga og ég hlakka til að geta deilt afurðum verkefnins með ykkur þegar að þessu kemur.

Gleðilega hátíð!

Jólaleikjafjör 19. des. / Auglýst eftir þátttakendum

Í tengslum við verkefnið Handbolti á Heimavelli verður efnt til Jólaleikjafjörs sunnudagsmorguninn 19. desember nk. þar sem börnum í 1.-4. bekk verður boðið að taka þátt í leikjum með áherslu á kast og grip. Leikirnir verða teknir upp á myndskeið og gefnir út sem leiðbeiningarefni um uppsetningu og framkvæmd leikjanna sem farið verður í.

Við biðjum áhugasama foreldra og börn þeirra að kynna sér þennan viðburð hér í skráningarskjalinu – https://forms.gle/sQqUcn4Y1RLzjfLB6 og skrá sig til þátttöku.

Ferkari upplýsingar veitir ábyrgðarmaður verkefnisins

Sveinn Þorgeirsson, í gegnum handboltiaheimavelli@gmail.com

Handbolti á heimavelli: Kynning verkefnis

Í vor hlaut verkefnið Handbolti á heimavelli styrk frá Þróunarsjóði námsgagna (verkefni nr. 212223-5011). Markmið verkefnisins er að búa til kennsluefni sem nýtist íþróttakennurum sem vilja leggja áherslu á kast, grip, hlaup og stökk í leikformi og tengja við handboltaíþróttina í gegnum leiki. Umfangið er námsefni fyrir 3 vikur, með tveimur 40 mínútna kennslustundum í viku. Markmið verkefninsins mætti skipta í fjóra þætti:

i) Að kynna handboltalíka leiki til kennslu á grundvallarhreyfingum með tímaseðlum fyrir 1.-4. bekk, heimaverkefnum og námsmatsverkfærum.

ii) Að grundvallarhreyfingum kasts, grips, hlaups og stökkum séu gerð viðeigandi skil með kennslu á lykilfærniþáttum.

iii) Að gefa íþróttakennurum verkfæri og hugmyndir að uppsetningu íþróttatíma með markmiðum tengdum aðalnámsskrá.

iv) Að stuðla að jákvæðri fyrstu upplifun nemenda af handbolta og handboltalíkum leikjum með verkefnum við hæfi.

Afturðir verkefnisins verða eftirfarandi:

Sex tímaseðlar fyrir 1-4 bekk með áherslum á grundvallarhreyfingarnar kast og grip í gegnum handboltalíka leiki – myndbandsútskýringar fylgja hverjum kennsluþætti

Þrjú heimaverkefni með myndbandsútskýringum á heimaverkefni með lýsingum og markmiðum

Tvö námsmatsverkfæri á grundvallarhreyfingum kasts og grips – myndbandsútskýringar til nýtingar við námsmat

Auk vefsíðu sem heldur utan um allt innleggið og vísar í markmiðin og áhugavert tengt efni

Ég taldi þörf á þessu verkefni sem handhægu kennsluefni sem leggur höfuðáherslu á þjálfun og þróun hreyfinga í gegnum skólaíþróttatíma. Þannig verður leitast við að gera námsefnið þannig ættu allir íþróttakennarar að geta framkvæmt þessa tíma á eigin HEIMAVELLI út frá þeirri fjölbreyttu aðstöðu sem okkur stendur til boða (stórir salir og litlir, með línum og mörkum eða ekki). Ennfremur verður lagt upp með heimaverkefni sem nemendur geta tekið með sér heim og virkjað foreldra með sér og þannig æft sig á eigin HEIMAVELLI einnig.

Efnið er hannað með nemendur í 1.-4. bekk grunnskóla í huga þó það megi að sjálfsögðu taka hugmyndir og yfirfæra á eldri hópa. Stefnt er að því að efnið verði tilbúið fyrir áramótin svo hægt verði að innleiða þessar áherslur samhliða stórmóti landsliðs karla í handbolta í janúar næstkomandi.